Við bjóðum upp á þýðingar sem eru sérsniðnar að hverjum viðskiptavini. Við trúum því að með því að skilja þarfir viðskiptavinanna, það til hvaða áheyrenda þeir vilja ná og hvernig, getum við boðið fullkomlega upp á þá þjónustu sem þeir leita eftir.
Auk fullkomins valds á frummáli (tungumálinu sem þýtt er af) og markmáli (tungumálinu sem þýtt er á) þurfa þýðendur að hafa þekkingu á því efni sem þeir eru að þýða, þ.m.t. hugtakanotkun, og gera sér fullkomlega grein fyrir því hver markhópurinn er.
Þrátt fyrir að hver sem er geti í raun sest niður og byrjað að þýða texta er það ekki svo að allir geti gert það á fullnægjandi hátt. Allir þýðendur okkar hafa gert þýðingar að starfi sínu og allir hafa þeir yfir 5 ára reynslu af þýðingum. Að auki hafa margir þeirra menntun á öðru sviði sem nýtist gjarnan við þýðingarnar.
Enska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af ensku.
Þýska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af þýsku.
Danska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af dönsku.
Franska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af frönsku.
Pólska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af pólsku.
Sænska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af sænsku.
Norska
Við bjóðum upp á almennar og sértækar þýðingar á og af norsku.
Annað tungumál
Ekki hika við að hafa samband við okkur í tölvupósti eða með símtali.
Tölvur og tækni
Við erum í essinu okkar þegar kemur að tölvu- og tækniþýðingum. Eftir áralanga reynslu af samstarfi við helstu tæknirisa heimsins höfum við viðað að okkur einstakri þekkingu á tækni- og hugbúnaðarþýðingum. Við höfum ekki lengur tölu á þeim notendaviðmótum sem við höfum þýtt, hjálpartextum, flóknari textum fyrir tæknimennina eða notendavænu textana sem ætlaðir eru almenningi.
Við skiljum þörfina fyrir að ná til sem flestra, og að tæknivætt nútímafólk gerir kröfur um að bæði notendaviðmót og stuðningsefni sé aðgengilegt á eigin móðurmáli. Einnig vitum við að slíkt efni er í stöðugri þróun og að uppfæra þarf þýðingarnar reglulega. Styrkur okkar liggur ekki síst í því að geta byggt nýjar þýðingar á eldra efni og hugtakagrunnum sem eru byggðir upp jafnt og þétt – og þannig má spara kostnað. Við vinnum fyrir mörg tæknifyrirtæki og höfum því góða innsýn í helstu nýjungar í tölvu- og upplýsingatækni og vitum því fullkomlega hvað við syngjum.
Fjármálatextar
Lykilatriði við þýðingu fjármálatexta er þekking á viðfangsefninu og þeim hugtökum sem notuð eru í fjármálaheiminum. Hjá Þýðingar.is höfum við lagt mikla vinnu í að koma okkur upp sérhæfðum orðasöfnum á fjármálasviði þar sem ítarlegar skýringar fylgja öllum hugtökum. Við höfum reynslu af þýðingu texta fyrir banka og aðrar fjármálastofnanir, erlenda verðbréfasjóði sem og íslensk félög. Hvort sem um er að ræða sérhæfðan fjármálatexta, kynningartexta fyrir almenning eða ársskýrslur fyrir hluthafa getur þú treyst því að textinn þinn sé í góðum höndum hjá okkur.
Lyfjatextar
Þýðing lyfja- og lækningatexta er mikil nákvæmnisvinna þar sem nauðsynlegt er að miðla réttum, nákvæmum og ítarlegum upplýsingum til lesandans. Notendur lyfja hafa oft litla sem enga fagþekkingu á þeim lyfjatextum sem þeir þurfa að lesa og því er rétt þýðing og hugtakanotkun lykilatriði á þessu sviði, þar sem villur geta leitt af sér alvarleg vandamál og jafnvel stofnað lífi fólks í hættu. Að sama skapi er mikilvægt að stjórnendur lækningatækja hafi fullkominn skilning á þeim tækjum sem þeir vinna með, að spurningalistar til sjúklinga séu á sem eðlilegustu máli, að textar á sviði rannsókna séu ítarlegir og textar í forritum sem tengjast heilsu og lyfjum séu kjarnyrtir og réttir.
Starfsfólk Þýðingar.is býr yfir áratugalangri reynslu á sviði lyfja- og lækningatexta. Jafnframt býr fyrirtækið að gríðarstórum og mjög ítarlegum hugtakagrunnum sem eru beintengdir við öll vinnuskjöl og þar sem nýjum hugtökum er reglulega bætt inn. Að auki tryggir strangt gæðaeftirlit okkar að allir lyfjatextar séu villulausir og þýddir samkvæmt forskrift Evrópsku Lyfjastofnunarinnar. Hjá okkur starfa sérhæfðir þýðendur á sviði lyfja- og læknisfræði auk yfirlesara sem hafa góða þekkingu og menntun á þessu sviði. Auk nokkurra íslenskra fyrirtækja treysta yfir tuttugu lyfjafyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu okkur fyrir þýðingu lyfjatexta sinna – aftur og aftur.
Lagatextar og reglugerðir
Lagatextar eru í eðli sínu vandmeðfarnir þar sem orðalag þeirra getur boðið upp á ólíka túlkun. Staðgóð þekking og skilningur á sértækum orðaforða laganna er því nauðsynlegur þar sem rangt þýddur lagatexti getur haft alvarlegar afleiðingar.
Við höfum mikla reynslu af þýðingu lagatexta á mismunandi sviðum. Meðal skjala sem við þýðum eru samningar, lög og reglugerðir, vottorð, einkaleyfi og dómsskjöl og við þýðum fyrir félög, stofnanir og einkaaðila. Jafnframt bjóðum við upp á löggiltar skjalaþýðingar þegar á þarf að halda.
Ferðamennska
Ferðamenn eru alls staðar. Þeir tala líka alls konar tungumál og gera kröfur um að fá þjónustu og upplýsingar á máli sem þeir skilja.
Ferðaþjónustan er ört stækkandi markaður. Hvort sem um er að ræða skemmtiferðir, ráðstefnur, ævintýraferðir eða aðrar ferðir, og hluti af sjálfsagðri þjónustu við ferðamenn og nauðsynlegt öryggisatriði er að sjá þeim fyrir upplýsingum á eigin tungumáli. Þessar upplýsingar verða sífellt umfangsmeiri í takt við aukna notkun ferðavefja og samfélagsmiðla.
Við höfum átt gott samstarf við marga aðila í ferðaþjónustunni sem gera sér grein fyrir mikilvægi þessa og unnið efni á vefsvæði, bókunarkerfi, bæklinga, þjónustuskilmála og ýmislegt kynningarefni fyrir flugfélög, hótel, bílaleigur og fleiri ferðaþjónustufyrirtæki. Við höfum því mjög góða þekkingu og skilning á því hvernig best er að koma skilaboðum áleiðis til ferðamanna.
Kynningarefni
Þegar stefnt er að langtímasambandi við viðskiptavininn er afar mikilvægt að bjóða honum upp á upplýsingar á eigin tungumáli.
Yfir helmingur kaupenda tekur vörur með upplýsingum á móðurmálinu fram yfir ódýrari vörur þar sem upplýsingar eru aðeins á erlendu tungumáli og þrír af hverjum fjórum kjósa heldur vörur sem eru kynntar á eigin tungumáli. Sama hlutfall kaupenda er líklegra til að kaupa vöru aftur ef henni fylgja upplýsingar á máli sem þeir skilja.
Við bjóðum upp á góðar lausnir við þýðingu og staðfæringu bæklinga og kynningarefnis og getum unnið með texta á fjölmörgum skráarsniðum, þannig að uppsetning og útlit haldi sér við þýðinguna án þess að þörf sé á að setja textann upp á nýjan leik. Við ábyrgjumst fljóta og örugga vinnslu þannig að efnið skili sér til neytenda á réttum tíma án nokkurra vandræða. Verkferli okkar tryggja að auðvelt er að byggja nýtt efni á eldri þýðingum og þannig má bæði einfalda vinnuna og draga úr kostnaði.
Vefsvæði
„Skilja ekki allir ensku hvort eð er?“ er algeng spurning þegar kemur að þeirri ákvörðun hvort þýða eigi vefsíðu eða ekki. Svarið við spurningunni ræðst hins vegar bæði af markhópnum og vörunni. Þrátt fyrir að flestir Íslendingar skilji vissulega ensku er staðreyndin sú að í mörgum löndum talar minnihluti íbúa ensku og í mörgum tilvikum eingöngu sitt eigið móðurmál. Til að ná til kaupenda í þessum löndum er því mikilvægt að upplýsingar séu í boði á tungumáli viðkomandi. Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að þó svo að yfir 60% netnotenda heimsæki reglulega vefsíður á ensku kaupir aðeins fjórðungur vörur og þjónustu af þessum vefsíðum. Það ætti því ekki að koma á óvart að yfir 85% netnotenda telji að aðgangur að upplýsingum á eigin tungumáli sé lykilþáttur í að ákvarða kaup. Þrátt fyrir að engar upplýsingar liggi fyrir um þetta hjá Íslendingum væri óeðlilegt að áætla að annað gilti um okkur.
Þýðing vefsíðna þarf hvorki að vera flókin né tímafrek. Yfirleitt er hægt að færa allan texta út í einni textaskrá sem er svo þýdd og flutt inn aftur þannig að uppsetning haldi sér. Þegar nýjum texta er svo bætt við vefsíðuna síðar er textinn einfaldlega fluttur út aftur og kerfi okkar sjá um að finna nýja textann sjálfkrafa og þýðendur okkar að þýða hann. Sérfræðingar okkar eru boðnir og búnir til að finna bestu lausnina þegar kemur að þýðingu á vefsíðunni þinni eða fyrirtækisins þíns.