Spurt og svarað

Nokkrar leiðir eru til að lækka kostnað við þýðingar. Sú sem skilar mestum árangri til lengri tíma er að nota þýðingaminni. Þannig geta fyrirtæki nýtt eldra efni í stað þess að þýða það frá grunni. Aðrar leiðir eru m.a. að stytta frumtexta, þar sem viðskiptavinir greiða vanalega fyrir hvert orð, og að vinna með skjöl á meðfærilegum skráarsniðum á borð við Microsoft Word. Það getur sparað kostnað að senda frumskjal til þýðingar í stað t.d. PDF-skjala. Þegar þýða á viðbætur við skjöl getur verið nokkuð kostnaðarsamt ef orðum er breytt í setningum sem þegar hafa verið þýddar og því ætti að láta slíkar setningar vera, nema nauðsyn kalli á annað.

Með almennum þýðingum er átt við þýðingu texta þar sem ekki er þörf á sérþekkingu af hálfu þýðandans. Með sértækum þýðingum er átt við að þýðandinn þarf að hafa sérþekkingu á því efni sem á að þýða. Dæmi um sértæka þýðingu er þýðing á lyfjatexta eða notendaviðmóti stýrikerfa.

Já. ISO 17100 er t.d. gæðastaðall fyrir þá sem bjóða upp á þýðingar og sem ætlað er að tryggja gæði þýðinga. Þýðingar.is fylgir þessum staðli.

Hægt er að þýða flestar skrár en þó er mjög mismunandi hversu mikill undirbúningur er nauðsynlegur fyrir hverja þeirra. Þannig þarf yfirleitt að umbreyta PDF-skjölum fyrir þýðingu – þar sem uppsetning riðlast – á meðan ekki þarf að breyta InDesign-skjölum, Word-skjölum eða Excel-skjölum.

Við val á þýðanda eða þýðingastofu er mikilvægt að spyrja að því hvort viðkomandi hafi reynslu af þýðingum á viðkomandi sviði. Ef textinn er t.a.m. sérhæfður fjármálatexti er afar ólíklegt að verkið verði unnið á fullnægjandi hátt ef viðkomandi hefur enga reynslu af þýðingu slíkra texta. Að sama skapi er mikilvægt að spyrja um notkun þýðingaminna, sérstaklega ef um er að ræða lengri texta og líklegt er að þýða þurfi meira efni á sama sviði síðar.

Helsti munurinn á þýðingastofum og sjálfstætt starfandi þýðendum felst t.a.m. í þeim verk- og gæðaferlum sem stofur hafa komið sér upp, breidd þjónustunnar og viðbragðstíma. Þýðingastofur skipta þýðingu texta yfirleitt í þýðinguna sjálfa, samlestur tilbúinnar þýðingar við frumtexta og að lokum prófarkalestur. Þannig koma yfirleitt þrír aðilar að þýðingunni. Vegna eðlis starfseminnar gefa þýðingastofur starfsfólki sínu oft færi á að einbeita sér að því að öðlast þekkingu á ákveðnu sviði.

Hugtakagrunnur er sérsniðið orðasafn (eða orðabók) á ákveðnu sviði eða fyrir tiltekna viðskiptavini. Í hugtakagrunnum er safnað saman lykilhugtökum á viðkomandi sviðum sem styttir tímann sem fer í þýðinguna þar sem þýðendur þurfa ekki að leita að þýðingu orða eða senda fyrirspurnir vegna þeirra.

Við segjum stundum að það taki styttri tíma að tiltaka hvaða sviðum við sérhæfum okkur ekki á. Við höfum þýtt texta og handbækur fyrir lyftur og rúllustiga, fylgiseðla lyfja og texta um lyfjaprófanir, texta um mismunandi ökutæki, viðmót fyrir farsíma og ritvinnsluforrit, fjármálatexta fyrir banka og vogunarsjóði og ótal margt fleira. Við fylgjum þeirri reglu að við tökum aðeins að okkur verk ef við erum þess fullviss að hafa til þess bæði þekkingu og reynslu.

Þrátt fyrir að blæbrigðamunur kunni að vera á gæðaferli okkar milli tiltekinna viðskiptavina er meginreglan sú að nota þýðendur með sérþekkingu og reynslu á því sviði sem textinn tekur til, að annar þýðandi fari yfir þýðinguna að henni lokinni og að þýðingahugbúnaður og hugtakagrunnar séu ávallt notaðir við þýðinguna. Lokaskrefið í öllum þýðingum er svo gæðaprófun á lokaútgáfu textans.

Grunnkrafan sem gerð er til þýðenda er að þeir hafi fullkomið vald á því tungumáli sem þýtt er á, auk yfirgripsmikillar þekkingar á því tungumáli sem þýtt er af. Í samræmi við EN 15038-staðalinn gerir Þýðingar.is þá kröfu til þýðenda sinna að þeir hafi háskólagráðu í þýðingafræði eða á öðru sviði sem gagnast í störfum þeirra, auk a.m.k. tveggja ára starfsreynslu.

Þýðingavélar eru oftast notaðar þegar viðskiptavinurinn þarf eingöngu að gera sér grein fyrir meginatriðum í frumtexta eða sem fyrsta skref í þýðingum einfaldari texta.

Þýðingahugbúnaður er hugbúnaður eða forrit sem er notað til að halda utan um þýðingar og hugtök sem þýðandi hefur þýtt. Hann gagnast því vel til að halda samræmi innan texta og á milli verka. Þýðingavél er hins vegar verkfæri sem notar algóriþma til að finna eða giska á bestu þýðinguna á texta án þess að mannshöndin (eða -hugurinn) komi þar nærri. Þrátt fyrir að geta gagnast í sumum tilvikum henta þýðingavélar mjög sjaldan vel til að þýða texta á fullnægjandi hátt.

Þýðingar.is notar mismunandi þýðingahugbúnað, allt eftir því hvað hentar best fyrir hvert verk. Sá hugbúnaður sem við kjósum þó helst að nota heitir memoQ og hefur verið í notkun hjá okkur frá árinu 2010.

Þýðingar.is hefur gefið út megnið af hugtökum í tveimur orðabókum fyrirtækisins, almennri orðabók og orðabók á sviði læknisfræði. Þessar orðabækur hafa verið opnaðar á netinu, þ.e. standa öllum til boða. Stefnan er svo að gefa út aðrar orðabækur fyrirtækisins í framtíðinni.

Orðabækur sem við hjá Þýðingar.is höfum búið til fara að nálgast hundraðið. Þær eru mismunandi að stærð og efni. Þær smæstu eru aðeins tugir hugtaka á meðan þær stærstu telja tugi þúsunda hugtaka. Sumar eru búnar til fyrir ákveðið sérsvið, svo sem orðabækur okkar á sviði lyfjafræði eða ökutækja, á meðan aðrar eru almennari. Sértækar orðabækur, þ.e. orðabækur sem búnar eru til fyrir tiltekna viðskiptavini eingöngu, eru farnar að nálgast tuginn.

Kostnaður við þýðingar ræðst af nokkrum þáttum. Sá mikilvægasti er lengd textans sem á að þýða. Hún segir hins vegar sjaldnast alla söguna. Algengt er að einhverjar endurtekningar séu innan texta, sérstaklega lengri texta, sem þá lækkar þýðingakostnaðinn. Að sama skapi er texti miserfiður í þýðingu, sem kann að hafa áhrif á verðið.

Bakþýðing er þýðing texta sem þegar hefur verið þýddur yfir á það mál sem textinn var þýddur af. Ef texti er t.d. þýddur af ensku á íslensku, og svo aftur af íslensku yfir á ensku, er síðari þýðingin bakþýðing. Mikilvægt er að bakþýðing sé unnin af öðrum þýðanda en þeim sem sá um upphaflegu þýðinguna. Bakþýðingar eru oftast notaðar þegar nákvæmni texta skiptir öllu máli, t.d. þegar um er að ræða mikilvægar lyfjaþýðingar.

Þýðingahugbúnaður eru forrit sem margir fagþýðendur nota til að flýta fyrir þýðingu og til að tryggja gæði og samræmi við eldri verk. Með þýðingahugbúnaði geta þýðendur séð hvaða setningar í nýjum texta er búið að þýða áður og hvernig það var gert, séð hvort hugtök eru til í sértækum eða almennum hugtakagrunnum og keyrt gæðaprófun á texta. Þýðingahugbúnaður sparar þýðendum í langflestum tilvikum tíma og þar af leiðandi kostnað fyrir viðskiptavininn.

Með vélþýðingu er átt við þýðingu texta án þess að mannshöndin (og -hugurinn) komi þar nærri. Margir kannast við að nota Google Translate til að þýða texta, oft með nokkuð skondnum árangri. Þróun þýðingavéla hefur hins vegar verið hröð á síðustu árum og nú er svo komið að stundum er hægt að fá tiltölulega nytsamlegan texta úr þeim. Hins vegar verður alltaf að hafa í huga í hvaða tilgangi á að nota textann. Vélþýðingar henta þannig oftast þegar notandi þarf eingöngu að átta sig á merkingu texta og engin áhersla er lögð á það hvort hann sé réttur eða fallegur. Einnig geta vélþýðingar í sumum tilvikum gagnast sem fyrsta skrefið í þýðingum og sparað þannig þýðendum einhvern tíma.

Best er að nota þjónustu löggiltra skjalaþýðenda þegar um er að ræða sértæka þýðingu ætlaða þriðja aðila sem þarf jafnframt staðfestingu á að þýðingin sé unnin af löggiltum skjalaþýðanda (svo sem þegar um er að ræða dómsskjöl eða vottorð). Löggildar þýðingar henta sjaldnast þegar um er að ræða markaðstexta, einfaldari samskipti, ársreikninga o.s.frv. þar sem kostnaður við þær er oftast meiri, auk þess sem löggildar þýðingar eru sjaldnast lesnar yfir af öðrum þýðanda.

Löggiltir skjalaþýðendur eru þýðendur sem hafa þreytt og staðist löggildingarpróf fyrir dómtúlka og skjalaþýðendur og, í kjölfarið, fengið löggildingu. Einungis löggiltir skjalaþýðendur hafa leyfi til að stimpla þýðingu sem löggilda.

Með frumtexta er átt við textann sem þýtt er af og með marktexta textann sem þýtt er yfir á. Þegar þýtt er af ensku yfir á íslensku er því enski textinn frumtextinn og sá íslenski marktextinn.

Við teljum verkum ekki vera lokið fyrr en viðskiptavinurinn er ánægður. Í þeim undantekningartilvikum þar sem viðskiptavinir hafa gert athugasemdir er yfirleitt um að ræða tilvik þar sem viðskiptavinir höfðu í upphafi aðrar hugmyndir um „yfirbragð“ textans, t.d. að hann ætti að vera meira flæðandi. Oftast má komast hjá þessu með því að tiltaka óskir um blæbrigði og orðanotkun í upphafi. Séu viðskiptavinir hins vegar ekki ánægðir með lokaútgáfuna vinnur starfsfólk okkar að því að aðlaga textann í samræmi við óskir viðskiptavinarins þar til hann er ánægður.

Markmið Þýðingar.is er að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu og gæði á sem hagkvæmastan hátt. Ekkert verk er of lítið fyrir okkur og ekkert verk er of stórt. Við ráðum yfir stærsta teymi innanhússþýðenda á Íslandi, sem gerir okkur kleift að þýða stærri verk á skemmri tíma og tryggja jafnframt fyrsta flokks gæði og samræmi. Að auki erum við í samstarfi við fjölmarga þýðendur um allan heim sem allir hafa skuldbundið sig til að uppfylla gæðastaðla fyrirtækisins.

Þýðingar.is býður upp á þýðingar, yfirlestur, löggildar skjalaþýðingar og prófarkalestur. Allar þýðingar eru lesnar yfir af öðrum aðila en þeim sem þýddi textann til að tryggja gæði hans. Að auki bjóðum við upp á almennar orðabækur sem eru opnar almenningi sem og sértækar orðabækur sem eru búnar til fyrir tiltekinn viðskiptavin og aðeins opnar honum.

Starfsfólk Þýðingar.is kappkostar að vinna þýðingar hratt og örugglega. Eins og á við um allt er hins vegar hægt að flýta sér of mikið við verk þannig að það komi niður á gæðum þess. Þýðingar.is fórnar aldrei gæðum fyrir tíma nema skýr ósk um slíkt liggi fyrir frá verkkaupa.

Við gerum okkur grein fyrir því að þarfir viðskiptavina okkar þegar kemur að þýðingum eru mismunandi. Í markaðstexta þarf t.d. að huga sérstaklega að „yfirbragði“ textans á meðan nákvæmni er lykilatriði í lyfjaþýðingum. Í ársskýrslum er svo farið bil beggja. Stundum þurfa viðskiptavinir okkar svo einnig að skilja texta sem allra fyrst til að geta brugðist fljótt við því sem stendur í honum án þess að textinn eigi að koma fyrir augu annarra en viðkomandi. Í þeim tilfellum getur verið gott að nota vélþýðingu með eða án yfirlesturs. Slíkar þýðingar taka styttri tíma en ella auk þess sem nokkur sparnaður getur orðið við það. Þýðingar.is víkur hins vegar aldrei frá verkferlum sínum án þess að skýr ósk komi um það frá viðskiptavini.